Um HVER

Um HVER

SAGAN VARÐVEITT Í HVER

HVER - Hvað er HVER?

HVER er skammstöfun fyrir ,,Háhita-verkefni Reykjaness". Um er að ræða sagnfræðilegan gagnagrunn um nýtingu jarðhita á Reykjanesi. Hver.is inniheldur margs konar efni úr sögu HS Orku HF og HS Veitna HF og um fyrirrennara þeirra Hitaveitu Suðurnesja HF allt frá stofnun til dagsins í dag. Grunnurinn inniheldur blaðagreinar, ljósmyndir, ársskýrslur, Fréttaveitur (blað starfsmannafélags), kynningarefni og kvikmyndir af  framkvæmdum auk viðtala við starfsmenn svo eitthvað sé nefnt.

HVER - Framsýni í varðveislu upplýsinga

Árið 2006 voru liðin 30 ár frá stofnun Hitaveitu Suðurnesja. Mikið vatn hefur runnið um leiðslur á þeim tíma og hefur fyrirtækið vaxið og dafnað framar björtustu vonum eigenda þess og velunnara. Við slík tímamót er mönnum sagan jafnan hugleikin og var ákveðið að safna öllum markverðum upplýsingum um Hitaveitu Suðurnesja á einn stað (nú HS Orka HF og HS Veitur HF) og gera þær aðgengilegar almenningi. Á vordögum afmælisársins hófu stjórnendur viðræður um gerð gagnagrunns á upplýsingasviði og úr varð,,Háhitaverkefni Reykjanes", með skammstöfunina HVER.

HVER - Heimasíðan

Til þess að upplýsingarnar komi sem flestum að notum þurfa þær að vera aðgengilegar. Því hlutverki er heimasíðunni www.hver.is ætlað að þjóna. Síðan er hönnuð með það að markmiði að vera áhugaverð við fyrstu kynni og letur stórt og læsilegt fyrir ungu kynslóðina. Á leitarsíðunni er hægt að kalla eftir efni út frá þeim fjórum grunnflokkum sem gengið er út frá við efnisöflun og innsetningu; greinum, ljósmyndum, skýrslum og kvikmyndum. Hægt er að takmarka leitina við leitarorð og einnig leita eftir ákveðnum tímabilum. Leitarvélin leitar í textum blaðagreina en annað efni, ljósmyndir, skjöl og kvikmyndir, er merkt með efnisorðum (tags). Einnig er hægt að leita eftir ákveðnu tímabili með því að tilgreina það í þar til gerðum felliglugga.

HVER - HS Orka HF og HS Veitur HF

Hver.is er sögulegur gagnagrunnur HS Orku HF og HS Veitna HF. Hver.is inniheldur upplýsingar um þá samverkandi þætti sem lagt hafa grunninn að tilvist þessara tveggja fyrirtækja. Þekking á sögunni er forsenda árangurs og framþróunar í nútíma samfélagi. Hver.is er ætlaður ungum sem öldnum sem vilja kynna sér söguna og fræðast um þau miklu áhrif sem jarðhitanýting á Reykjanesi hefur haft í för með sér.

HVER gerir samtíðarfólki og komandi kynslóðum kleift að nálgast sögu jarðhitanýtingar á Reykjanesi á auðveldan og lifandi hátt, auk þess sem grunnurinn tryggir varðveislu hennar um ókomna tíð.

Grunnurinn, sem er öllum opinn, hefur að geyma fjölbreytt efni í máli og myndum. Safnað hefur verið saman efni úr fortíð og samtíð, sem spannar allan starfstíma Hitaveitu Suðurnesja HF, nú HS Orku HF og HS Veitna HF. Eins og hverir eru stöðug uppspretta orku er HVER lifandi uppspretta efnis þar sem reglulega er bætt inn í grunninn efni og mun hann því koma til með að vaxa og dafna með fyrirtækjunum þegar fram líða stundir. Sögugrunnurinn er gullkista upplýsinga um  framkvæmdir, aðdraganda stofnunar og áhrif HS Orku og HS Veitna á samfélagið. Á HVER.IS er hægt að nálgast sífellt stækkandi safn greina, fræðsluefnis, ljósmynda, skýrsla, loftmynda og kvikmynda svo eitthvað sé nefnt.

Í fáum löndum heimsins skiptir sagan eins miklu máli og á Íslandi. Allt frá ritun fornsagnanna hefur þessi ómetanlegi arfur verið órofa þáttur í þróun þessarar litlu þjóðar frá fábrotnu bændasamfélagi til eins tæknivæddasta lands í heimi.
Hin öra þróun í upplýsingatækni síðustu ára hefur kallað á nýja hugsun við varðveislu upplýsinga og aðgengi almennings að þeim. Eru einstaklingar og fyrirtæki óðum að átta sig á þeim möguleikum sem þessi tækni býður uppá til að varðveita söguna.

Gagnagrunnurinn er í sífelldri þróun og biðjum við notendur vinsamlegast að senda okkur spurningar, athugasemdir og hugmyndir að því sem betur má fara við framsetningu og innihald. Netfang verkefnastjóra er hver@hver.is.